154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

staðfesting ríkisreiknings 2022.

399. mál
[16:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þetta eru alveg rétt og heiðarleg svör hjá ráðherra og gott að heyra þennan tón. Það eru hins vegar þó nokkur undirliggjandi atriði sem stjórnvöld hafa ekki náð tökum á. Það er húsnæðisvandinn, sem er landlægur vandi og einstaka sveitarfélög geta ekki borið ábyrgð á. Það er hinn svokallaði fráflæðisvandi í heilbrigðiskerfinu, sem er undirliggjandi þrýstingur en líka útgjaldavandi eins og það hefur verið kallað. Seðlabankastjóri segir að fjárlögin séu hlutlaus gagnvart þessu og ég er sammála því. Þetta eru ekki verðbólguhvetjandi fjárlög í stóra samhenginu. Það eru kannski einhverjar örfáar kommur á prósentum hér og þar, t.d. varðandi krónutölugjöld, en almennt séð eru þau ekki verðbólguhvetjandi. (Forseti hringir.) Það eru þarna atriði undir sem skipta máli, laun vissulega að hluta til, en við erum í meðaltalsverðbólgu upp á um 0,4% á mánuði þegar verðbólgumarkmið er 0,2%. (Forseti hringir.) Hvar er þessi undirliggjandi vandi upp á 0,2% sem er alltaf að spóla aukalega upp á sig? Það eru ekki bara launin. Hvar annars staðar er hann?